154. löggjafarþing — 90. fundur,  21. mars 2024.

skráning foreldratengsla.

114. mál
[18:12]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég kem hérna upp til að taka undir þessa þingsályktunartillögu. Ég er ekki á henni en lýsi mig samþykka þessari tillögu, enda er þetta kannski skref í þá átt að uppfæra lögin og reglurnar og það umhverfi í kringum breytt samfélag. Þá erum við að horfa á rétt barnsins í þessu tilfelli. Eins og kemur hérna fram, ef tvær konur sem búa saman eignast barn er þetta ekki hægt en sama krafa er ekki gerð til gagnkynhneigðs fólks í hjúskap eða skráðri sambúð sem hefur eignast barn með aðstoð tæknifrjóvgunar, þó að annar faðir sé kannski fyrir barninu svona tæknilega séð. En við þurfum nefnilega að horfa á fleiri þætti en akkúrat þetta í breyttri samfélagsmynd og breyttu fjölskyldumynstri sem getur verið svo miklu fjölbreyttara en var fyrir 20, 30, 40 árum, svo ég fari ekki lengra aftur. Það mætti útvíkka þessa þingsályktunartillögu til að horfa á fleiri þætti hvað þetta varðar. Ég vildi því bara koma hingað upp og lýsa mig samþykka. Vonandi verður með einhverjum hætti farið af stað með þessi rýnigleraugu yfir þau lög, þær reglur og það umhverfi sem er utan um börn í svona fjölbreyttari og skemmtilegri fjölskyldum.